Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 463/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 463/2022

Fimmtudaginn 8. desember 2022

A

gegn

Barnavernd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi, dags. 19. september 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsþjónustu. 

Í gögnum málsins kemur fram að lögmannsaðstoð hafi verið veitt í tengslum við mál barna kæranda hjá Barnaverndarnefnd B frá 27. júní 2022 til og með 20. júlí 2022. Fram kemur í tímaskýrslu lögmanns að unnar hafi verið 42,5 klst. vegna málsins. Samþykkt var að greiða fyrir 13,4 klst., sbr. ákvörðun, dags. 15. september 2022.

Þann 19. september 2022 óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndar B. Greinargerðin barst þann 17. október 2022 með bréfi, dagsettu sama dag og sama dag var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 17. október 2022, sem sendar voru til kynningar með bréfi, dags. 18. október 2022. Viðbótargreinargerð barst frá Barnavernd B með bréfi, dags. 31. október 2022, sem sendar voru til kynningar með bréfi, dags. 1. nóvember 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 1. nóvember 2022, voru þær sendar til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Barnaverndar B um synjun styrks til greiðslu lögmannskostnaðar vegna barnaverndarmáls varðandi börn kæranda, sbr. 2. mgr. 47. gr. bvl.

Með bréfi, dags. 15. september 2022, tilkynnti Barnavernd B um þá ákvörðun sína að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar fyrir 13,4 klst.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, skal barnaverndarþjónusta veita foreldrum og barni, sem er aðili máls, fjárstyrk vegna lögmannaðstoðar. Hafi það verið gert í máli þessu en eingöngu að hluta. Barnavernd hafi viðurkennt mistök að hluta og fallist á kröfu um að tímagjald í málinu yrði samkvæmt núgildandi reglum 19.000 kr. á klukkustund.

Athugasemdir hafi verið gerðar við fjölda greiddra tíma. Samkvæmt fyrrnefndri lagagrein, 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, skuli taka tillit til umfangs, eðlis máls og efnahags foreldra. Það hafi Barnavernd B ekki gert í ákvörðun sinni heldur kosið þess í stað að miða eingöngu við þá tíma þegar lögmenn hafi mætt á fundi hjá barnavernd. Hins vegar segi skýrt í reglum barnaverndar um þennan kostnað að greiða skuli lögmannskostnað vegna vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar. Það verði því að teljast sérstaklega varhugavert að túlka undirbúning til funda mjög þröngt þar sem slík vinnubrögð séu til þess fallin að valda því að lögmenn veigri sér við að sinna slíkum verkefnum af alúð og vandvirkni, sem er til þess fallið að rýra mjög réttindi borgaranna, sem sé sérstaklega ámælisvert í barnaverndarmálum. Það sé algerlega á skjön við reglur sem séu leiddar af barnaverndarlögum og reglum sem Barnavernd B hafi sjálf sett sér, sem og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Það sé því algerlega ljóst að tímarnir sem barnavernd hafi ákveðið að greiða fyrir séu langtum minna en raunverulegt vinnuframlag. Ljóst sé af tímaskýrslunni að 42,5 klukkustundir fóru í málið áður en það komst í ferli dómsmáls. Gjafsóknarkostnaður gengur ekki upp í þá upphæð, enda liggur fyrir að tímarnir sem unnir voru í málinu fyrir dómi samsvara 1.260.460 kr.

Barnavernd B geti ekki verið í sjálfvald sett að ákveða hvenær skjólstæðingur eigi rétt á lögmannsþjónustu og hvenær ekki og þannig hagrætt unnum tímum sér í hag. Vakin sé athygli á því að Barnavernd B njóti þegar mikils hagræðis í formi staðlaðra kauptaxta sem sé langtum lægri en hefðbundinn lögmannskostnaður. Þá sé sérstaklega fundið að þeim rökstuðningi Barnaverndar B að neita að greiða fyrir vinnu lögmanns nema barnavernd hafi sjálf óskað eftir nærveru lögmanna. Það geti ekki annað en talist verulega íþyngjandi fyrir borgarana þar sem slíkt fyrirkomulag dragi verulega úr réttaröryggi borgaranna.

Auk þess sé beðist endurskoðunar á því hver tók ákvörðunina, en undir ákvörðunina um greiðslu ritar D. Vekja þarf athygli á því að mögulega sé hér um vanhæfi samkvæmt vanhæfisreglum stjórnsýslu að ræða, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Ljóst sé að D hafi átt aðkomu að málinu oft áður og því mjög líklegt að ákvarðanir hennar fyrr í málinu, sem Héraðsdómur B hafi ógilt í úrskurði sínum í máli nr. U-3299-2022, hafi mögulega litað ákvörðun hennar um að víkja svona verulega frá stjórnsýsluvenjum við ákvörðun lögmannsþóknunar.

Farið er fram á að krafa sem eftir standi verði greidd, þ.e. um 14.000 kr., að viðbættum virðisaukaskatti vegna vangoldinna greiðslna á tímabilinu fyrir 1. júlí. Þá sé gerð krafa um fulla greiðslu eftirstandandi tíma, 29,1 klukkustund, eða 552.900 kr., að viðbættum virðisaukaskatti.

Barnaverndarnefnd B hafi vísað í verklagsreglur sínar og tekið fram að til þess að ákvarða umfang og eðli máls horfi Barnaverndarnefnd B til sambærilegra og hliðstæðra mála. Hér verði að reka nokkra varnagla, enda hafi málið ekki margar hliðstæður, enda hafi málið verið rekið algerlega í þversögn við gildandi rétt og lög um stjórnsýslu og endað með því að dómari hafi fellt úr gildi úrskurð Barnaverndar B á grundvelli þess að rannsóknarreglunni hafi ekki verið sinnt. Sú yfirsjón barnaverndar að sinna ekki þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar, hafi orðið til þess að vinna lögmanns hafi orðið mun meiri en eðlilegt verði að teljast þar sem lögmaður hafi þurft að upplýsa málið betur fyrir barnavernd en venja sé. Sú vinna hafi skilað árangri, enda hafi ákvörðuninni verið snúið við.

Til samanburðar má nefna niðurstöðu kærunefndar barnaverndarmála í máli nr. 4/2014 þar sem orðrétt segi: ,, […}Samkvæmt reglunum ber að framvísa tímaskýrslu lögmanns með beiðni um fjárstyrk en telja verður að tímaskýrslan þjóni þeim tilgangi að veita upplýsingar um vinnu lögmanns. Tímaskýrslan hefur einnig þann tilgang, ásamt öðrum gögnum, að varpa ljósi á eðli og umfang málsins. Hún verður því höfð til hliðsjónar, eins og önnur gögn málsins, við mat á því sem skiptir máli og verður lagt til grundvallar við ákvörðun á styrkfjárhæðinni.[…]‘‘ Í dag er 5. gr. reglnanna samhljómandi hvað þennan þátt varðar, þ.e. gerð er krafa um tímaskýrslu sem verður að teljast hafa þýðingu. Það er óvenjulegt að Barnavernd B vilji fá téða tímaskýrslu ef nefndin ætlar svo að virða skýrsluna algerlega að vettugi og miða þess í stað við ,,sambærileg‘‘ mál.

Skorað hafi verið á Barnavernd B að framvísa gögnum og ákvörðunum úr sambærilegum málum til að hægt væri að meta sannleiksgildi fullyrðinga nefndarinnar.

Þar sem niðurstaða dómstólsins varð á þann veg sem raun ber vitni sé ekki hægt að áætla annað en að málarekstri hafi verið verulega ábótavant af hálfu Barnaverndarnefndar B. Verði fallist á með Barnaverndarnefnd B að málið sé ósérkennilegt og almennt, verði það að teljast mikill áfellisdómur yfir starfsháttum Barnaverndar B.

Loks sé áréttað að reglur sem barnaverndarnefnd setji sér skáki ekki beinu lagaboði 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2003. Þótt lögin segi að barnavernd geti sett sér reglur þá geti reglurnar ekki verið óvenjulega íþyngjandi, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslunnar, en reglur sem séu til þess gerðar að útiloka réttindi hljóti að falla þar undir, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1185/1994. Í því áliti taldi umboðsmaður Alþingis að þó að byggt væri á skýrri lagareglu þá þyrfti engu að síður að byggja á meðalhófsreglu stjórnsýslunnar. Lagaákvæði 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga sé ætlað að tryggja réttaröryggi borgaranna fyrst og fremst, en ekki ætlað sem átylla til hagræðingar í rekstri sveitarfélaga. Því verði að setja verulegan fyrirvara við vægi reglna barnaverndarnefndar í þessu máli.

Í greinargerð barnaverndar virðist gæta misskilnings. Það er ekki verið að rekja fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála hvort brotið hafi verið gegn rannsóknarskyldu stjórnvalda. Búið er að dæma hvað þann lið varðar. Málflutningur barnaverndar sem snýr að þessu ætti frekar heima í áfrýjunarbeiðni til Landsréttar sem hefur heimild til að endurskoða úrskurði héraðsdóms, en úrskurðarnefnd velferðarmála hefur það ekki. Hafi barnaverndarnefnd haft áhuga á að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar þá bar að gera það innan lögákveðins frests samkvæmt 153. gr. laga nr. 91/1991. Úr því að það var ekki gert telji lögmaður kæranda að Barnavernd B uni niðurstöðunni og skilji því ekki hvers vegna verið sé að rengja niðurstöðu dómsins fyrir nefndinni.

Misskilningur virðist líka hafa ráðið för í rökstuðningi nefndarinnar hvað varðar raunverulegu kröfu málsins, þ.e. greidds kostnaðar vegna reksturs málsins fyrir Barnavernd B. Ekki hafi verið gerð krafa um kostnað sem fór fram fyrir héraðsdómi, enda hafi verið búið að greiða þá kröfu með gjafsókn. Viðleitni til að útkljá málið áður en það fór fyrir héraðsdóm, geti ekki valdið óþarfa kostnaði því að eins og fram hefur komið var sú vinna tilkomin vegna háttsemi barnaverndarnefndar. Hefði nefndin hins vegar strax fallið frá ákvörðun sinni hefði hún sloppið við þennan kostnað. Líkt og fram hafi komið í greinargerð barnaverndar eigi að greiða fyrir vinnu vegna „[…]undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar[…]“ Rökstuðningur barnaverndar geti því ekki skilist öðruvísi en tilraun til að taka sér sjálfdæmi um það hvaða kostnað nefndin hyggist greiða sem líkt og fram hefur komið vegur verulega gegn réttaröryggi foreldra sem búa í B. Væru rök barnaverndar viðurkennd sem gild gæti barnavernd valdið borgurum gríðarlegu fjárhagslegu tjóni með því að gera mál flóknari viðfangs en hefðbundið er, meðal annars með því að vanrækja rannsóknarskyldu sína og útvista þeirri vinnu á lögmenn borgaranna.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B komi fram að synjað hafi verið að hluta um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl. Um hafi verið að ræða mál tveggja barna kæranda vegna vistunar þeirra utan heimilis.

Um sé að ræða vinnu lögmanns vegna fyrirtöku máls hjá Barnaverndarnefnd B þann 1. júlí 2022 sem fór svo fyrir Héraðsdóm B. 

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal barnaverndarnefnd veita foreldrum og barni sem sé aðili máls, fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 1. mgr. sömu greinar og í tengslum við rekstur máls fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála eftir reglum sem nefndin setur. Í reglunum skal taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfang málsins. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmál eiga kost á að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð.

Barnaverndarnefnd B setti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga þann 19. febrúar 2019. Í 1. gr. reglnanna komi fram að veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vegna vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftir atvikum sé jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Þá komi fram að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Auk þess sé ekki veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanna á fundi Barnaverndarnefndar B nema sérstaklega hafi verið um annað samið.

Lögfræðingar Barnaverndar B afgreiða umsóknir um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 5. gr. tilvitnaðra reglna, og skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins. Líkt og fram komi í bréfi lögfræðings Barnaverndar B til C lögmanns, dags. 15. september, hafi ekki verið fallist á að veita fjárstyrk vegna þeirra tíma sem ekki töldust til vinnuframlags til undirbúnings, mætingar á fund nefndarinnar eða kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Þá hafi ekki verið sérstaklega óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanna vegna þeirra tíma sem raktir voru í bréfi lögfræðings barnaverndar. Ekki hafi verið samþykkt að greiða styrk vegna kæru til Héraðsdóms B eða vegna vinnu við umsókn um gjafsókn, enda heimila fyrrgreindar reglur ekki slíkt. Í úrskurði Héraðsdóms B þann 17. ágúst sl. hafi verið kveðið á um að gjafsóknarkostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns, C, kr. 1.125.000.

Barnavernd B hafi fallist á að greiða fyrir þá vinnu sem lögmaður sinnti í tengslum við fyrirtöku málsins hjá Barnaverndarnefnd B í samræmi við gildandi reglur. Þá hafi verið fallist á að greiða sem nemur 7 klukkustundum á tímagjaldi kr. 17.000, auk virðisaukaskatts, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 6,4 klukkustundir á tímagjaldi kr. 19.000, auk virðisaukaskatts, en Barnavernd B hafi hækkað það gjald sem greitt hafi verið fyrir vinnu lögmanna úr kr. 17.000 í kr. 19.000 þann 1. júlí 2022 eins og lögmanni hafi verið kynnt í bréfi þann 15. september sl. þar sem þeir tímar hafi verið nánar raktir í samræmi við vinnuskýrslu lögmanns. Samkvæmt tímaskýrslu lögmanns hafi þær vinnustundir sem ekki var samþykkt að greiða ekki verið vegna vinnu í tengslum við fyrirtöku málsins fyrir barnaverndarnefnd sem sé forsenda þess að greiða megi samkvæmt reglum um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga.

Lögmaður hafi í kæru sinni bent á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10521/2020. Þar hafi komið fram að sú ákvörðun að skipta kröfu í tvennt væri talin íþyngjandi, þ.e. að hluta til á fyrra gjaldi og að hlut til á nýja gjaldinu, sbr. þetta mál. Lögmaður hafi krafist þess að miðað yrði við viðmiðunarfjárhæð á þeim tíma er krafan varð gjaldkræf, þ.e. kr. 19.000, sem var í gildi eftir 1. júlí 2022. Undir þetta hafi Barnavernd B tekið og breytt í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis og hafi Barnavernd B samþykkt að lögmanni yrðu greiddar alls 13,4 klst. á tímagjaldi kr. 19.000, auk virðisaukaskatts.

Að mati Barnaverndar B hafi ekki verið óeðlilegt að meta þetta tiltekna mál með hliðsjón af öðrum málum þar sem fjallað er um vistun barna utan heimilis. Við yfirferð vinnuskýrslna og reikninga síðastliðna 12 mánuði hjá Barnavernd B megi sjá að vinnuframlag lögmanna vegna fyrirtöku mála fyrir nefndinni sé 5 til 12 klst.

Í 5. gr. reglna Barnaverndar B um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga sé kveðið á um að lögfræðingar barnaverndar taki mið af umfangi og eðli málsins þegar tekin sé ákvörðun um veitingu fjárstyrks.

Í viðbótargreinargerð, dagsettri 31. október 2022, hafi lögmaður kæranda vísað til þess að Héraðsdómur B hafi fellt úr gildi úrskurð Barnaverndarnefndar B á grundvelli þess að rannsóknarreglunni hafi ekki verið sinnt. Þá segir lögmaður að úr því að niðurstaða dómstólsins hafi verið á þann veg sem raun beri vitni sé ekki hægt að áætla annað en að málarekstri hafi verið verulega ábótavant af hálfu Barnaverndarnefndar B.

Í úrskurði Héraðsdóms B hafi komið fram að vafi hafi verið á lögmæti vímuefnaprófs vegna lyfjanotkunar móður. Þá hafi móðir lýst sig fúsa til að gangast undir blóðprufu til að ganga úr skugga um sannleiksgildi prófsins en það hafi verið mat héraðsdómara að Barnavernd B hefði ekki hug á að taka upp slíkt samstarfs við móður. Var því talið að Barnavernd B hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Raunin sé sú að Barnavernd B styðjist við almenn vímuefnapróf en ekki blóðprufur til að sannreyna edrúmennsku skjólstæðinga Barnaverndar B. Starfsmenn barnaverndar hafi kannað til fulls möguleikann á því að nýta blóðprufu en slíkt hafi ekki verið mögulegt. Er því hafnað að málarekstri af hálfu Barnaverndarnefndar B hafi verið verulega ábótavant eins og lögmaður kæranda taki fram í athugasemdum sínum, enda verði það ekki séð af gögnum málsins. 

Þá hafi lögmaður vísað til þess að reglur vegna styrks Barnaverndarnefndar B til greiðslu lögmannskostnaðar skáki ekki beinu lagaboði 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga og vísi til þess að reglurnar geti ekki verið óvenjulega íþyngjandi, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslunnar.

Eins og fram hefur komið eru í gildi hjá Barnavernd B reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar sem Barnaverndarnefnd B samþykkti þann 19. febrúar 2019. Eiga þær reglur sér lagastoð í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem kveðið sé á um að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem er aðili máls, fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð eftir reglum sem nefndin setji. Í 1. gr. þeirra reglna kemur fram:

„Barnaverndarnefnd B veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.   Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.  Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Ekki er veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanna á fundi Barnaverndarnefndar B nema sérstaklega sé um annað samið.“

Í umræddu máli hafi verið fallist á ákveðinn tímafjölda sem Barnavernd B hafi talið að væri í samræmi við fyrrgreindar reglur og í samræmi við umfang málsins og rekstur þess vegna fyrirtöku málsins hjá Barnaverndarnefnd B. Ekki hafi verið hægt að fallast á að veita fjárstyrk vegna þeirra tíma sem ekki teldust vinnuframlag vegna undirbúnings, mætingar á fund nefndarinnar eða kynningar á niðurstöðum nefndarinnar, sbr. fyrrgreindar reglur. Í úrskurði Héraðsdóms B var kveðið á um að gjafsóknarkostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns kæranda, eða 1.125.000 kr. Í bréfi lögfræðings Barnaverndar B þann 15. september 2022 hafi sérstaklega verið kveðið á um að ekki væri veittur styrkur vegna kæru til Héraðsdóms B eða vegna vinnu við umsókn um gjafsókn, enda heimili fyrrgreindar reglur ekki slíkt.

Með hliðsjón af framangreindu er óskað eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðun Barnaverndar B um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga sem lögmanninum, C, var kynnt með bréfi, dags. 15. september 2022.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að greiddur verði styrkur í samræmi við tímaskýrslu vegna lögmannsaðstoðar á grundvelli 47. gr. bvl. vegna meðferðar máls hennar hjá Barnavernd B.

Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl., sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tengslum við andmælarétt foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Barnaverndarnefnd B samþykkti þann 19. febrúar 2019 reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl. Í 1. gr. reglanna kemur eftirfarandi fram:

„Barnaverndarnefnd B veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefnarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með stafsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Ekki er veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanna á fundi Barnaverndarnefndar B nema sérstaklega sé um annað samið“

Í 2. gr. reglnanna kemur fram að jafnframt sé greiddur fjárstyrkur til greiðslu lögmannskostnaðar fyrir kærunefnd barnaverndarmála nú úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 2. mgr. 47. gr. bvl. Fram kemur í 5. gr. að lögfræðingar Barnaverndarnefndar B afgreiði umsóknir um fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. og einnig er kveðið á um að með beiðni skuli fylgja tímaskýrsla lögmanns. Fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og taka skuli tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk sé tekin.

Vísað er til þess í kæru að sá starfsmaður Barnaverndar B sem undirritað hafi ákvörðun um greiðslu lögmannskostnaðar hafi áður komið að máli er varðar sömu einstaklinga. Almennt verður talið í málum sem þessum að starfsmenn Barnaverndar B teljist ekki vanhæfir við meðferð og úrlausn barnaverndarmála, enda þótt þeir hafi áður komið að málefnum hlutaðeigandi barna. Það getur þó komið til ef atvik eða aðstæður eru þannig að telja megi að óhlutdrægni starfsmanns verði dregin í efa. Ekkert hefur komið fram í gögnum málsins sem bendi til þess að svo hafi verið í máli þessu.

Af hálfu kæranda hefur verið lögð fram tímaskýrsla lögmanns sem kveður á um 42,5 klst. vinnu. Með hliðsjón af þeirri tímaskýrslu samþykkti Barnavernd B að greiða styrk vegna 13,4 klst. vegna vinnu á tímabilinu 27. júní 2022 til og með 20. júlí 2022, á tímagjaldinu 19.000 kr.

Samkvæmt framangreindum reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð sbr. 47. gr. bvl. skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að teknu tilliti til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Samkvæmt reglum Barnaverndar B ber að framvísa tímaskýrslu lögmanns með beiðni um fjárstyrk, en telja verður að tímaskýrslan þjóni þeim tilgangi að veita upplýsingar um vinnu lögmanns vegna málsins. Tímaskýrslan hefur einnig þann tilgang, ásamt öðrum gögnum, að varpa ljósi á eðli og umfang málsins. Hún verður því höfð til hliðsjónar eins og önnur gögn málsins við ákvörðun styrkfjárhæðar.

Samkvæmt sundurliðaðri tímaskýrslu nam vinna lögmanns samtals 42,5 klst. vegna hagsmunagæslu fyrir kæranda á tímabilinu 27. júní 2022 til og með 20. júlí 2022.

Í gögnum málsins kemur fram að á umræddu tímabili hafi aðallega átt sér stað samskipti á milli aðila og yfirlestur gagna. Fram kemur að ekki sé fallist á að greiða fjárstyrk vegna þeirra tíma sem ekki töldust vinnuframlag til undirbúnings, mæting á fundi nefndarinnar eða kynning á niðurstöðu hennar. Þá er ekki fallist á að greiða styrk vegna þeirra tíma lögmanns þegar starfsmenn nefndarinnar höfðu ekki sérstaklega óskað eftir hans viðveru. Í tímaskýrslu koma fram unnir tímar vegna kæra og gjafsóknarbeiðni við Héraðsdóm B, en engar heimildir eru til að fallast á greiðslu vegna umræddra tíma við vinnslu þess máls sem hér er til meðferðar. Ekkert bendir því til þess að við mat Barnaverndar B á hæfilegum tímafjölda vegna framangreindrar vinnu hafi ekki verið gætt málefnalegra sjónarmiða.

Með hliðsjón af framangreindu, framlagðri tímaskýrslu, eðli og umfangi máls svo og fjárstyrkja sem veittir hafa verið í sambærilegum málum, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Barnaverndar B.

Ákvörðun Barnaverndar B um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. september 2022, í máli A, vegna fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, er staðfest.       

 

Guðrún Agnes Þorsteindóttur formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum